Um fyrirtækið

Árið 1992 voru hafnar tilraunir með framleiðslu og sölu á hamsatólg og tólg. Byrjað var í eldhúsinu heima á Stóruvöllum og í upphafi var tólgin seld í eina fiskbúð í Reykjavík. Árangurinn af þessum tilraunum varð það góður að hafist var handa við að breyta 24 m² mjólkurhúsi í iðnaðarhúsnæði sem uppfyllti skilyrði til matvælaframleiðslu. Haustið 1993 hófst svo framleiðslan fyrir alvöru.

Fyrirtækið Stóruvellir ehf var síðan stofnað árið 1995 og framleiðslan jókst smátt og smátt jafnframt því sem tækjabúnaðurinn var aukinn og aðstaðan bætt. Framtakið skapar nokkra atvinnu í Bárðardal, atvinnu með sveigjanlegum vinnutíma sem kemur sér vel þar sem hefðbundinn búskapur er aðal atvinnuvegurinn í sveitinni. Við framleiðslunna starfa að jafnaði 5-6 einstaklingar í hlutastarfi.

Árið 2004 dundu síðan áföllin yfir en þá brann atvinnuhúsnæðið til grunna og það ekki einu sinni heldur tvisvar. En upp var staðið, þrjóskan nýtt til hins ýtrasta og sótið blásið af. Hafist var handa við uppbyggingu og í dag er framleiðslan í glæsilegu og vel útbúnu 160 m² húsnæði með góðum tækjabúnaði og vinnuaðstöðu.

Vörur fyrirtækisins fást í öllum almennum matvælabúðum.

Netfang: storuvellir@storuvellir.is